Óvæntur „afneitari“ loftslagsvísinda

Þegar árið 1970 kallaði Halldór Laxness ríkisstyrkta framræslu lands „hernaðinn gegn landinu“ enda væru mýrarnar „öndunarfæri landsins.“ Halldór hafði þó ekki upplýsingar um þá losun gróðurhúsalofttegunda sem framræslan hefur í för með sér. Nú eru þær upplýsingar loks komnar fram og íslenskum græningjum þykja þær heldur óþægilegar.

Í athugasemd á Facebook síðu Andríkis á mánudaginn í síðustu viku segir Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands að Andríki hafi

…gripið til útúrsnúninga til að afsaka mengun frá bílum.

Þar á Árni við að hér hefur verið vitnað í síðasta svar umhverfisráðherra um árlega losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi haustið 2015. Í svarinu kom fram að árið 2012 var losunin frá framræsta landinu 72% af heildarlosuninni samkvæmt nýjustu stuðlum og matsþáttum vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC). Bílar voru með 4%, sjávarútvegur 3% og iðnaður 12%.

Íslenskir vísindamenn hafa komist að svipaðri niðurstöðu og IPCC varðandi losunina frá framræsta landinu.

Í Morgunblaðinu 7. ágúst var til dæmis viðtal við Sunnu Áskelsdóttur starfsmann Landgræðslu ríkisins sem heyrir undir umhverfisráðuneytið. Landgræðslan er að hrinda af stað verkefni um endurheimt votlendis.

Sunna bendir á að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi hafi verið metin 16,6 milljónir CO2 ígilda á árinu 2013, samkvæmt viðmiðun vísindanefndar loftslagssamningsins. Langmesta losunin er úr framræstu votlendi, samkvæmt sömu viðmiðun, eða 11,7 milljónir. Niðurstöður rannsókna Landbúnaðarháskóla Íslands eru á sömu nótum.

losunco2_skyrslaumendurheimtvotlendis

Mynd úr skýrslu samráðshóps umhverfisráðuneytisins 2016. Bílar, skip, flug og fleira er innifalið í liðnum orkunotkun.

Þetta eru sömu tölur og birtust í skýrslu samráðshóps umhverfisráðuneytisins og grafið hér til hliðar sýnir. Grafið er fengið úr skýrslunni. Framræst land er lang stærsta uppspretta árlegrar losunar hér á landi.

Þarna eru þá einnig komnar útblásturstölur fyrir árið 2013 og eins og talnaglöggir lesendur átta sig á þá er hlutur framræsta landsins 70,5%.

Um þetta virðist því ágætis „vísindalegur samhljómur“ eins og talið er mikilvægt í þessum málaflokki. Framræst land var með 72% árið 2012 og 70,5% árið 2013.

Á meðan losun frá framræstu landi er um og yfir 70% og losunin frá bílum innan við 4% er augljóst að enginn verulegur árangur næst í því að sporna gegn losun nema snúa sér að framræsta landinu. Eltingarleikur við bíleigendur er heldur léttvægur í þessu sambandi.

Af einhverjum ástæðum virðist íslenskum græningjum hins vegar þykja þetta heldur „óþægilegur sannleikur“ svo fengið sé hugtak – sem þeir ættu að þekkja – að láni hjá Al Gore.

Helsti forsvarsmaður íslenskra græningja virðist ekki aðeins afneita loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna heldur einnig íslenskum vísindamönnum. Hann kallar það „útúrsnúning“ að benda á stöðuna eins og vísindamenn eru sammála um að hún sé. Hann lítur út fyrir að vera orðinn „afneitarinn“ sem hann hefur sakað aðra um að vera sem hafa viljað skoða loftslagsmálin með opnum huga en ekki sem eitthvað sem menn verða að trúa á í blindni og aldrei megi velta vöngum yfir.

En auðvitað er það íslenskum græningjum áfall að þeir komist ekki lengur upp með hjóla með ómaklegum hætti í bíleigendur og útgerðina sem helstu útblástursdólga landsins.

Um hvað eiga þeir þá að tala?