Tryggingagjald heldur launafólki niðri en samt vill ASÍ ekki lækka það

ASÍ vill halda tryggingagjaldi á lægstu laun háu svo greiða megi hátekjufólki hærri bætur.

Á valdatíma vinstristjórnarinnar, 2009-2013, dundu skattahækkanir á landsmönnum, fólki og fyrirtækjum. Það var ekki bara tekjuskatturinn sem var hækkaður og skattþrepum þar fjölgað úr einu í þrjú, heldur voru skattahækkanir hvar sem stjórnvöld komu þeim við. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður, virðisaukaskattur var hækkaður, erfðafjárskattur var hækkaður og svo framvegis.

Ein hækkunin skipti miklu máli þótt menn fyndu ekki fyrir henni með eins gegnsæjum hætti og mörgum öðrum. Tryggingagjald var hækkað verulega.

Þessar skattahækkanir hafa að mjög litlu leyti verið afturkallaðar. Það eina sem núverandi stjórnvöld ætla að afturkalla er eigið umboð til að stjórna landinu.
Tryggingagjaldið hefur aðeins verið lækkað um hálft prósent eða svo, allt þetta kjörtímabil, sem er langt undir þeirri hækkun sem varð á síðasta kjörtímabili.

En stærsti hluti landsmanna borgar aldrei tryggingagjald með beinum hætti. Hinn venjulegi launþegi stendur ekki upp frá kvöldmatnum og segir við fjölskylduna að nú ætli hann að opna heimabankann til að borga tryggingagjaldið.

Það eru atvinnufyrirtækin sem borga tryggingagjald. Gjaldið er reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna. Því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun, því hærri fjáræð þarf það að greiða í tryggingagjald. Því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er, því dýrari er hver starfsmaður fyrir fyrirtækið sitt. Því hærri sem prósentan er, því minni launahækkunum getur fyrirtækið staðið undir.

Það er launþegum mjög í hag að tryggingagjald sé sem lægst.

Tryggingagjaldi var ætlað að fjármagna atvinnuleysistryggingasjóð og þannig var hækkunin á síðasta kjörtímabili útskýrð. Atvinnuleysi væri svo mikið. En nú hefur atvinnuleysið verið næstum ekkert í langan tíma, en samt eru stjórnvöld mjög treg til að lækka tryggingagjaldið.

Þegar komið var á fæðingarorlofslögunum dýru, var ákveðið að hluti tryggingagjalds skyldi renna til að fjármagna þau, því þá var næstum ekkert atvinnuleysi. En auðvitað hefði frekar átt að lækka tryggingagjaldið, ef ekki var þörf á peningunum í atvinnuleysistryggingasjóð.

Nú hafa Samtök atvinnulífsins farið fram á að tryggingagjaldið verði lækkað umtalsvert, enda atvinnuleysi næstum ekkert og stærstur hluti tryggingagjaldshækkunar vinstristjórnarinnar stendur enn. En hverjir hafa þá risið upp og krafist þess að gjaldið verði ekki lækkað? Ef tryggingagjaldsprósentan lækkaði ættu fyrirtæki auðveldara með að ráða nýtt starfsfólk og að gera betur við það sem fyrir er. En samt hefur einn aðili sent frá sér ályktun og krafist þess að gjaldið verði ekki lækkað. Hækkunin sem Jóhanna og Steingrímur stóðu fyrir standi áfram og hver starfsmaður verði þar með dýrari fyrir fyrirtækið sitt en hann þyrfti að vera.

Hvaða aðili er það, sem vill ekki létta þessa byrði fyrirtækjanna, byrði sem gerir launahækkanir torsóttari og hægir á fjölgun starfa?

Alþýðusamband Íslands.

Þar er þeim sama þótt starfsmenn verði dýrari og launahækkanir erfiðari. Þeir vilja fá sem mest skattfé inn í fæðingarorlofssjóðinn svo auðveldara verði að borga hátekjufólki fæðingarorlofsgreiðslur. Sjóðurinn á fyrir greiðslum til þeirra lægra launuðu. Það er hátekjufólkið sem þarf að fá meira.