Vilja afnema sjálfvirka fjölgun borgarfulltrúa

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi og Sigríður Á. Andersen alþingismaður.

Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík mælti í febrúar fyrir frumvarpi sem afnemur þá sjálfvirku fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 sem vinstri stjórnin leiddi í lög á síðasta kjörtímabili. Frumvarpið bíður þess nú að vera afgreitt úr þingnefnd og komast til annarrar umræðu.

Sigríður og Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins rita grein um málið í Fréttablaðið í dag þar sem segir:

Á síðasta kjörtímabili þrýsti vinstri stjórnin þeirri lagabreytingu í gegnum þingið að skylt yrði að fjölga borgarfulltrúum í Reykjavík við næstu borgarstjórnarkosningar úr 15 í að lágmarki 23 en í allt að 31.

Borgarfulltrúar í Reykjavík eru nú 15 og hafa aldrei verið fleiri að einu kjörtímabili undanskildu. Á kjörtímabilinu 1978-1982 var ákveðið að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 21 en á næsta kjörtímabili ákvað borgarstjórn að fækka þeim aftur og hefur síðan ekki séð ástæðu til að fjölga þeim aftur.

Engin ástæða er til að löggjafinn þvingi borgaryfirvöld til fjölgunar borgarfulltrúa og að stækka þannig kerfið. Nú eru um átta þúsund kjósendur að baki hverjum borgarfulltrúa og er það svipað hlutfall og tíðkast í höfuðborgum Norðurlandanna.

Kjartan hefur ásamt öðrum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins flutt tillögu um að borgarstjórn skori á alþingi að breyta umræddu lagaákvæði þannig að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki.

Vinstri flokkarnir í borgarstjórn hafa hins vegar lagst gegn frumvarpi Sigríðar eins og kemur fram í umsögn forsætisnefndar borgarinnar.

Sigríður og Kjartan segja að það veki sérstaka athygli að vinstri flokkarnir í borgarstjórn styðji með þessum hætti að alþingi taki ráðin af borgarstjórninni. En þar sem um er að ræða útþenslu kerfisins þurfi það kannski ekki að koma á óvart.