Pólitískir ákærendur og þeir sem sáu að sér

Fjórir þingmenn sem studdu pólitísku ákæruna allt til loka ásamt Atla Gíslasyni sem snérist hugur.

Þeir sem stóðu að pólitískri ákæru alþingis á hendur Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra hafa ekki hreykt sér mjög af henni eftir að dómur var kveðinn upp fyrir rúmum fjórum árum. Hátt var reitt til höggs en úr varð skammarlegt vindhögg. Yfir 300 milljónum króna af fé skattgreiðenda var eytt í erindisleysuna.

Upphaflega þingsályktunartillaga um ákæruna var samþykkt haustið 2010. Hér hefur áður verið rakið hvernig þingmenn Samfylkingarinnar settu á svið leikrit í atkvæðagreiðslunni til að koma sínu fólki, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvini G. Sigurðssyni, undan ákæru en láta pólitíska andstæðinga sitja í súpunni.

Í mars 2012 lagði Bjarni Benediktsson fram tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákærunnar.

Alþingi ályktar að fella úr gildi ályktun um málshöfðun gegn ráðherra frá 28. september 2010 og felur saksóknara Alþingis að afturkalla í heild ákæru útgefna með stefnu sem þingfest var fyrir landsdómi 7. júní 2011. Þar með ályktar Alþingi að falla frá málshöfðun á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi.

Þarna fengu þeir sem áður höfðu stutt ákæruna í upphafi tækifæri til að sjá að sér og draga ákæruna til baka. Þeir höfðu fengið á annað ár til að átta sig á því hvílík mistök væru á ferðinni.

En þá lagði Magnús Orri Schram þingmaður Samfylkingarinnar fram tillögu til frávísunar á tillögu Bjarna. Frávísunartillagan var samþykkt og því kom tillaga Bjarna aldrei til atkvæða. Þeir sem studdu tillögu Magnúsar Orra voru:

Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þórhallsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús M. Norðdahl, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson og Þuríður Backman.

Þetta er hinn endanlegi hópur sem ber ábyrgð á einu pólitísku ákæru alþingis.

Meðal þeirra sem studdu ekki tillögu Magnúsar Orra voru tveir af fimm flutningsmönnum upphaflegu tillögunnar um ákæru, þeir Atli Gíslason og Sigurður Ingi Jóhannsson. Upphaflegu flutningsmennirnir Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir stóðu hins vegar vörð um ákæruna.

Aðrir sem sáu að sér og vildu að tillaga Bjarna um að fella ákæruna niður kæmist til atkvæða voru Ásmundur Einar Daðason, Birkir Jón Jónsson, Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson.

Það er allt í lagi að þetta sé rifjað reglulega upp.