Venjulegar umræður í Ríkisútgjaldavarpinu

RÚV - ríkisútvarp vinstri manna.

Nýlega lagði „velferðarvaktin“ til að foreldrar nemenda í grunnskólum þyrftu ekki að greiða neitt fyrir þau ritföng sem nemendur notuðu í skólunum heldur myndu útsvarsgreiðendur taka að sér að greiða þetta. Siv Friðleifsdóttir formaður „velferðarvaktarinnar“ og fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins sagði að sveitarfélögin hefðu vel efni á þessu því heildarkostnaður vegna námsgagna grunnskólabarna væri áætlaður 300 til 350 milljónir króna á ári

Þingmenn vinstriflokkanna hafa þegar brugðist við og lagt fram frumvarp um þetta brýna mál – þótt í hinu orðinu krefjist þeir þess að þingið hætti störfum sem allra fyrst svo hægt sé að koma nýrri vinstristjórn til valda.

Þegar komið var frumvarp frá þingmönnum vinstriaflanna þurfti ekki að bíða lengi eftir því menn tækju við sér í Efstaleiti 1. Ríkisútvarpið efndi í vikunni til umræðna um málið.

Þær fóru fram með hefðbundnum hætti í Efstaleiti 1.

Tveir viðmælendur voru fengnir til að ræða þetta í þættinum „Samfélagið“ á Rás 1 á miðvikudaginn. Hverjir voru það?

Til þess voru fengin Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, og Jóna Benediktsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Ísafjarðar.

Það er skemmst frá því að segja að báðir viðmælendurnir voru á þeirri skoðun að fylgja ætti þessari tillögu. Útsvarsgreiðendur ættu að borga ritföngin.

Þetta kom þeim í Efstaleiti mjög á óvart. Þeir taka hlutleysisskyldur sínar mjög alvarlega og gleyma aldrei þeirri skyldu sinni að sjá til þess að gagnstæð sjónarmið komist að í umræðunni.

Í þættinum vakti stjórnandinn athygli á því að Barnaheill hefðu gengið „skrefi lengra“ en „velferðarvaktin“, því Barnaheill hefðu hafið undirskriftasöfnun til að þrýsta á málið.

Og hvers vegna ætli Jóna Benediktsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Ísafjarðar, hafi verið valin í þáttinn? Svarið við því fékkst kannski strax í kynningu stjórnanda þáttarins: „Svo verðum við líka í sambandi við Jónu Benediktsdóttur aðstoðarskólastjóra á Ísafirði, en Ísafjörður er eitt þeirra sveitarfélaga, ekki veit ég hvað þau eru mörg, kannski eru þau bara örfá, sem ákváðu að leggja þetta bara af, og ganga í málið. Við heyrum hvernig það var gert.“

Þetta er hefðbundin umræða Ríkisútvarpsins um „samfélagsmál“. Einhvers staðar kemur fram krafa um ný opinber útgjöld. Þáttastjórnendum líst strax vel á hana. Þeir fá einn eða tvo stuðningsmenn tillögunnar í viðtal. Engan sem er á móti tillögunni.

Þættir eins og þessir eru mjög algengir í Ríkisútvarpinu. Þættir, þar sem slagsíðan er í hina áttina, frá útgöldum til skattalækkana á launþega, eru næstum engir.