Dregur úr sölu raflátsbréfa

Raforkusala á Íslandi samkvæmt upprunavottorðum raforku. Heimild: os.is.

Frá árinu 2011 hafa íslensk raforkufyrirtæki selt evrópskum orkufyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra vottorð um að raforka evrópsku fyrirtækjanna sé „endurnýjanleg“. Í skiptum hafa íslensku raforkufyrirtækin fengið óendurnýjanlega orkugjafa á boð við olíu, kol, gas og kjarnorku inn í sitt bókhald.

Furðu lostnir íslenskir orkukaupendur sjá það einu sinni á ári á rafmagnsreikningum sínum að hve miklu leyti rafmagnið sem þvottavélin gengur fyrir er fengið með kolabruna og kjarnorku!

Orkuveita Reykjavíkur (Orka náttúrunnar) sýnir þennan uppruna til dæmis ekki á reikningum hvers mánaðar heldur aðeins einu sinni á ári. Gera má ráð fyrir að skýring á því sé einfaldlega: Við skömmumst okkar fyrir þetta.

Auðvitað er það fjarstæðukennt að kolaver í Ungverjalandi geti þóst bjóða endurnýjanlega orku með því að kaupa aflátsbréf af Orkuveitu Reykjavíkur. Ef til vill væri hægt að réttlæta viðskipti af þessu tagi ef raforkukerfi Íslands væri tengt meginlandinu, en svo er ekki enn. Þetta er því hrein og klár blekking hvað orkufyrirtækin hér á landi varðar.

En þetta er samkvæmt einni af snilldartilskipunum Evrópusambandsins sem hér hefur verið „innleidd“ hugsunarlaust.

Í nýjasta yfirliti Orkustofnunar um uppruna raforkunnar á Íslandi fyrir árið 2015 má sjá að verulega hefur dregið úr sölu þessara raflátsbréfa frá árunum 2013 og 2014 þegar meirihluti raforkunnar á Íslandi var skráður með uppruna í kjarnorku eða jarðefnaeldsneyti.