Stjórnarþingmenn með frumvarp gegn bensíníblöndun Steingríms

Þingmennirnir Sigríður Á. Andersen, Frosti Sigurjónsson, Willum Þór Þórsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir vilja burt með lög sem þvinga menn til að þynna út bensínið með dýrum, orkusnauðum og mengandi íblöndunarefnum.

Í tíð vinstri stjórnarinnar voru leiddar í lög kvaðir sem þvinga bensínstöðvar til að blanda dýrum og orkusnauðum jurtaafurðum í bensín og Dieselolíu.

Síðar kom upp úr kafinu að frumvarp Steingríms J. Sigfússonar um málið hafði verið skrifað í leynd af einkafyrirtæki út í bæ sem ætlaði sér að hagnast verulega á þessari kvöð. Það eitt og sér ætti að duga til að þingmenn sammælist um að afnema lögin. Virðing alþingis er undir. Þingið getur ekki látið fyrirtæki sem eiga beinna hagsmuna að gæta skrifa lögin í landinu.

Vínandinn eða korn-etanólið, sem nú er blandað í bensín, er dýrara í innkaupum en bensín. Etanólið er einnig um þriðjungi orkuminna en óblandað bensín. Íblöndunin leiðir því til aukinnar eyðslu í bílvélum og fleiri ferða á bensínstöðvar og þar með aukins innflutnings eldsneytis.

Bensínlítrinn kostar nú um 40 krónur á heimsmarkaði. Ríkissjóður styður innflytjendur hins vegar um 70 krónur fyrir hvern lítra sem þeir flytja inn af etanóli og blanda í bensínið. Hið sama gildir um jurtaolíu sem blandað er í Diesel en hún er tvöfalt dýrari en venjuleg Dieselolía í innkaupum. Þetta er gert með því að veita innflytjendum um 70 króna skattaívilnun af hverjum lítra íblöndunarefna, meðal annars af þeim sköttum sem eiga ella að fara í viðhald vegakerfisins. Skattfríðindin renna hins vegar að mestu leyti í vasa erlendra framleiðenda á þessum íblöndunarefnum því þau eru dýrari í innkaupum og auk þess er verulegur kostnaður við íblöndunina sjálfa og sérstakt birgðahald og flutninga fyrir íblöndunarefnin.

0fb023bba9813d90938a6b83d7126dc0Þannig renna milljarðar króna í erlendum gjaldeyri úr landi í stað þess að fara í vegagerð eða önnur verkefni hér innanlands.

Skógar eru jafnframt ruddir og votlendi ræst fram til að rýma fyrir ræktun þeirra matjurta sem þarf til að framleiða þetta eldsneyti. Þar með eykst losun gróðurhúsalofttegunda og líffræðilegum fjölbreytileika er ógnað. Framleiðsla þessa eldsneytis getur einnig dregið úr og haft óæskilegar sveiflur á framboð matvæla sem bitnar á hungruðu fólki. Um þetta hefur til dæmis Björn Lomborg ritað  The great biofuels scandal – Biofuels are inefficient, cause hunger and air pollution, and cost taxpayers billions.

En nú hafa fjórir stjórnarþingmenn, Sigríður Á. Andersen, Frosti Sigurjónsson, Willum Þór Þórsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir lagt fram frumvarp með það að markmiði að afnema þessi ólög.

Íslendingar eiga nóg af endurnýjanlegri orku og engin ástæða til að neyða menn til að flytja inn óþarfa orku með þessum hætti.