Alltaf hægt að eyða meiru en aldrei má lækka skattana

Í vikunni lagði svonefnd „velferðarvakt“, sem komið var á fót í tíð síðustu ríkisstjórnar, til að grunnskólanemendur fengju framvegis öll ritföng á kostnað skattgreiðenda. Enn eitt litla „góða málið“ til að færa landið aðeins lengra til vinstri.

Í Morgunblaðinu var í fyrradag talað við formann „velferðarvaktarinnar“, Siv Friðleifsdóttur. Hún sagði að „sveitarfélögin í landinu ráði vel við að greiða þennan kostnað alfarið, vegna þess, að samkvæmt úttekt Sambands íslenskra sveitarfélaga, þá er heildarkostnaður vegna námsgagna grunnskólabarna áætlaður 300 til 350 milljónir króna.“

Þá liggur það fyrir. Sveitarfélögin ráða vel við að borga þennan kostnað.

Þau ráða samt ekki við að lækka skatta. Það er hægt að spyrja næstum hvaða einasta sveitarstjórnarmann sem er og alltaf fæst sama svarið. Það er ekki hægt að lækka skatta. Flest sveitarfélög innheimta hámarksútsvar. Það er „ekkert svigrúm“ til útsvarslækkana.

Einnig var talað við formann skólanefndar Akureyrarbæjar. Hann tók mjög vel í hugmyndina um að foreldrar greiddu ekkert fyrir ritföng nemenda. „Við munum skoða þessi tilmæli Velferðarvaktarinnar mjög rækilega og taka þau alvarlega. Þetta hefur aðeins verið rætt í skólanefndinni hjá okkur og við áttum okkur alveg á því að það getur falist í þessu ákveðið réttlæti og það gæti líka komið í veg fyrir óæskilegan meting á milli barna, ef við sjáum alfarið um ritföngin handa þeim. Við munum því taka mjög vel í þetta, en hvort við náum þessu fyrir haustið, er óvíst.“

Það er að sjálfsögðu mikið réttlætismál að enginn þurfi að borga fyrir ritföng. Það verður líka að stöðva metinginn milli barna um flottasta blýantinn. Þess vegna verður að láta alla fá sömu stöðluðu ritföngin. Það gengur ekki að stelpan sem heldur með Liverpool sé með stílabók með mynd af Stephen Gerrard framan á, en strákurinn sem lifir fyrir hestamennskuna velji sér bók með mynd af fáki á spretti. Hér er mikilvægt að koma í veg fyrir óþarfa meting.

Svo verður að koma í veg fyrir meting á öðrum sviðum. Það er ekkert réttlæti í því að börn gangi í missmekklegum fötum og þess vegna þarf að taka upp samræmda skólabúninga. Mismunandi skólatöskur geta líka kallað á meting og auðvitað eiga skólarnir að útvega töskur. Það er líka mikið óréttlæti í því að nemendur séu keyrðir í skólann á misjafnlega fínum bílum og því er eðlilegast að starfsmenn skólans sæki þá á hverjum morgni, á reiðhjóli sveitarfélagsins. Það verður bara að gæta þess að leiðin verði valin af tilviljun hverju sinni. Annars fara börnin að metast um hver er sóttur fyrstur.