Feluleikurinn með framræsta landið

Árleg losun gróðurhúsaloftegunda á Íslandi miðað við tölur fyrir árið 2012 í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Á. Andersen.

Í áratugi héldu ráðuneyti og stofnanir á sviði umhverfismála, ásamt íslenskum umhverfissinnum, því fram að bílar, skip og iðnaður bæru helst ábyrgð á útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Á þessum forsendum var til að mynda gengið hart fram gegn bíleigendum á síðasta kjörtímabili og öll skattlagning bíla miðuð við útblástur gróðurhúsalofttegunda (CO2) en algerlega horft framhjá öðrum verri mengunarþáttum á borð við sót og NOx. Undir þessu yfirskini var Íslendingum einnig uppálagt að hefja íblöndun matvæla (jurtaafurða) í eldsneyti sem leiðir til aukinnar eyðslu, fleiri ferða á bensínstöðvar, meiri innflutnings á eldsneyti auk þess að stuðla að skógareyðingu og hungri í heiminum.

sigridur_andersen_1_bakgrunnur_crop

Sigríður Á. Andersen alþingismaður

En svo hóf Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins að spyrja umhverfisráðherra um losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi þar sem vísbendingar höfðu komið fram um að sú losun væri veruleg þegar vatni er veitt brott og súrefni kemst að lífmassanum sem safnast hefur í mýrarnar um aldir.

Fyrsta fyrirspurnin var lögð fram í mars 2015. Í svari ráðherrans kom fram að losunin frá framræstu landi væri tæp 12% af heildarlosuninni.

Svarið stangaðist á við aðrar upplýsingar sem lágu fyrir um málið. Því spurði Sigríður umhverfisráðherra aftur um málið í júlí 2015. Þeirri fyrirspurn var ekki svarað.

Í þriðja sinn spurði Sigríður um málið í október 2015 og þá barst það svar að losunin frá framræsta landinu væri 72% af heildarlosuninni.

Í desember 2015 hélt umhverfisráðherrann svo á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Áður en þangað var haldið hélt ráðuneytið blaðamannafund þar sem það var kynnt að losunin frá framræsta landinu væri núll!

Losunin frá framræsta landinu fór því úr 12% upp í 72% og svo niður í 0% eftir því hvort umhverfisráðuneytið svaraði í mars, október eða desember.

Þessi undansláttur er þeim mun undarlegri þegar það er haft í huga að Ísland hafði beitt sér fyrir því á vettvangi loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna að telja mætti endurheimt votlendis sem mótvægisaðgerð í loftslagsmálum. Þetta sjónarmið Íslands var samþykkt árið 2013. Ísland getur því samkvæmt alþjóðlegum loftslagssáttmálum minnkað losun sína um 72% með því að moka ofan í alla framræsluskurði landsins. Aðeins um 15% af hinu framræsta landi er talið nýtt til landbúnaðar.

Eftir að hafa orðið margsaga um útblásturinn frá framræsta landinu, jafnvel talið hann engan vera, efndi umhverfisráðherra svo nýlega til blaðamannafundar úti á Bessastaðatúnum þar sem var „ýtt úr vör verkefni við endurheimt votlendis sem er hluti af sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.“

Með því að ríkið færi að greiða mönnum fyrir að moka ofan í skurðina á ný rættust orð í grein Halldórs Laxness Hernaðurinn gegn landinu sem birtist í Morgunblaðinu á gamlársdag 1970.

Á síðustu áratugum hafa menn verið verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að ræsa fram mýrar, lífseigustu gróðursvæði landsins, undir yfirskini túnræktar. Seigar rætur mýragróðursins halda gljúpum jarðveginum saman og vatnið nærir fjölda lífrænna efna í þessum jarðvegi og elur smádýralíf sem að sínu leyti dregur til sín fugla. Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins. Þúsundir hektara af mýrum standa nú með opnum skurðum sem ristir hafa verið í þeim tilgángi að draga úr landinu alt vatn; síðan ekki söguna meir: eftilvill var aldrei meiníngin í alvöru að gera úr þessu tún. Fer ekki að verða mál til að verðlauna menn fyrir að moka ofaní þetta aftur?