Þingmenn hlaupi ekki frá þeim verkum sem þeir voru kjörnir til

Mynd: Dennis van de Water/Shutterstock.

Þingmenn sem treysta sér ekki til að ljúka kjörtímabilinu sem stjórnarskráin mælir fyrir um eiga að kalla inn varamenn. Verkkvíði einhverra þingmanna á ekki að leiða til þess að niðurstöður lýðræðislegra þingkosninga árið 2013 séu strikaðar út. Það hefur ekki enn verið fundið upp meðal við leti og engar líkur á að þingkosningar séu það.

Það var nefnt síðasta vetur að ef til vill yrði gengið til kosninga nú í haust. En það var eftir nokkurra daga ringulreið vegna mála fyrrum forsætisráðherra. Farsællega leystist úr þeirri flækju, líklega langt umfram það sem nokkur þorði að vona. Aðstæður eru því allt aðrar nú en þegar haustkosningar voru nefndar.

Sömuleiðis hljóta allir að sjá að talið um haustkosningar var ekki þyngra á metunum en svo að tiltekinn kjördagur hefur aldrei verið nefndur. Og þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa spurt daglega hvort kosið verði í haust. Á meðan ekki er nefndur annar kjördagur en sá sem stjórnarskráin mælir fyrir um í apríl á næsta ári hefur engin ástæðu til að ætla annað en að stjórnarskráin ráði för.

Ofan á þetta bætist svo sú staðreynd að menn hafa almennt ekki viljað kjósa að hausti því þá fer fram vinna við fjárlög næsta árs. Allir skynugir menn sjá að það er afleitt að skipta um ríkisstjórn í miðri fjárlagavinnunni. Fyrirsjáanleikinn, sem er fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu svo mikilvægur, væri endanlega þurrkaður út ef með nokkurra vikna fyrirvara myndi ný stjórn vinstriflokkanna hækka alla skatta.

Kosningar nú í haust skemma ekki aðeins núverandi kjörtímabil heldur myndu þær að öllum líkindum stytta næsta kjörtímabil einnig. Það mun enginn hafa áhuga á því að kjósa á ný í miðri fjárlagagerð við lok næsta kjörtímabils og því yrði kosningum að öllum líkindum flýtt um hálft ár.

Þetta myndi bætast við langan lista af óreglu í störfum alþingis frá því í ársbyrjun 2009 og þeirri óvirðingu sem af henni hlýst.

Það er ekkert annað að gera fyrir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna en að fara að skýrum ákvæðum í stjórnarskrá lýðveldisins um að þing sé kjörið til fjögurra ára. Því fyrr sem þeir segja það, því betra.