Verður þingið niðurlægt með ótímabæru þingrofi?

Mynd: Ane Cecilie Blichfeldt / norden.org.

Varla er haldinn saumaklúbbur í landinu án þess að virðing Alþingis sé nefnd eða öllu heldur skortur á henni.

Í stjórnarskrá lýðveldisins segir um kjör alþingismanna.

Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.

Til fjögurra ára. Lýðræðislegt umboð þeirra þingmanna sem nú sitja rennur því út í apríl að ári. Þeir voru kosnir fram í apríl á næsta ári og eiga ekki að hlaupa frá því verki sem þeim var falið í almennum kosningum.

Nú geta auðvitað komið upp þær aðstæður að ekki sé starfhæfur þingmeirihluti í landinu og enginn annar kostur en að rjúfa þing og boða til kosninga. Því fer fjarri að sú staða sé uppi. Ríkisstjórn með 38 þingmanna stjórnarlið er að störfum. Henni ber að ljúka kjörtímabilinu. Annað væri óregla sem grefur undan þinginu og virðingu þess.

Vissulega kom upp alvarlegt mál hjá fyrrum forsætisráðherra á liðnum vetri. Hann leyndi sameiginlegum hagsmunum sínum með kröfuhöfum gömlu bankanna. Málið hefði getað ónýtt margra ára vinnu við uppgjör bankanna ef það hefði komið upp á yfirborðið nokkrum mánuðum fyrr. En málið var leyst innan Framsóknarflokksins með því að setja manninn af sem ráðherra og annar maður tók við forsætisráðuneytinu.

Það er því auðvitað fráleitt að Alþingi í heild sinni eigi að gjalda fyrir þetta mál. Hinir þingmennirnir 62 höfðu enga hugmynd um óbærilega stöðu ráðherrans fyrrverandi og báru enga ábyrgð á henni. Hvers vegna ætti að senda allt þingið í skammarkrókinn fyrir þetta mál?

Ef að lýðræðislega kjörið þing verður rofið löngu áður en umboð þess rennur út er verið að senda út þau skilaboð að þingið beri ábyrgð á Wintris málinu.

Ber Ögmundur Jónasson ábyrgð á Wintris málinu? Á að senda hann heim einum vetri fyrr vegna þess? Eða Ragnheiður Ríkharðsdóttir? Katrín Júlíusdóttir? Helgi Hrafn Gunnarsson?

Nú er ekkert annað að gera fyrir þingmenn en að hrinda þessari tilraun til að gera þá að blórabögglum fyrir Wintris málið. Það er alger lágmarkstilraun af þeirra hálfu svo þingið líti ekki út fyrir að vera eins og hvert annað baðvatn sem skvett er út á götu.

Um leið væri haldin í heiðri sú regla úr stjórnskipan landsins að þing sé kjörið til fjögurra ára. Það er nóg komið af óreglu og þeirri óvirðingu sem af henni hlýst.