Ríkisábyrgð handa mér, byssuskot á hina

Maður sem krafðist 200 milljóna Bandaríkjadala ábyrgðar ríkissjóðs Íslands á viðskiptaævintýrum sínum í heilbrigðisbransanum telur nú að óljósar hugmyndir um nýtt sjúkrahús í Mosfellsbæ ógni lífi og limum Íslendinga.

Í grein í Fréttablaðinu í dag skrifar Kári Stefánsson:

Útlendingaspítalinn myndi því rústa því sem eftir er af íslensku heilbrigðiskerfi og gera endurreisn þess margfalt erfiðari en ella. Lífi og limum landsmanna steðjar því hætta af Brugada og hugmyndum hans um það hvernig hann geti gert sér fé úr heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Kári gengur jafnvel svo langt að eggja heilbrigðisráðherra til að afnema atvinnufrelsi lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annars starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og kæfa þessar hugmyndir í fæðingu:

…hvet hann til þess að sýna leiftrandi festu við að koma í veg fyrir að henni verði hrint í framkvæmd. Ég vil benda honum á að þegar ísbirnir ganga á land og lífi okkar og limum steðjar hætta af þeim leyfum við okkur að skjóta þá.

Líkt og hér hefur árið verið rakið samþykkti alþingi árið 2002 heimild til fjármálaráðherra til að veita bandarísku fyrirtæki að nafni deCODE Genetics Inc. ríkisábyrgð upp á US$ 200.000.000 vegna aukinnar starfsemi dótturfélags, Íslenskar erfðagreiningar, hér á landi.

DeCODE Genetics Inc. hafði verið stofnað árið 1996 og 1999 höfðu íslenskir ríkisbankar skorið erlenda stofnfjárfesta í félaginu úr snörunni með því að kaupa hlutabréf þeirra. Verðið sem ríkisbankarnir greiddu samsvaraði því að fyrirtækið væri verðmætara en nokkurt íslenskt fyrirtæki. Þó var þetta á þeim árum sem mikið var lagt upp úr því að fá erlenda fjárfestingu til landsins, ekki öfugt.

DeCODE Genetics Inc. óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í Bandaríkjunum árið 2009. US$ 200.000.000 eru 26 milljarðar króna. Það er ríflega helmingur af rekstrarkostnaði Landspítalans á ári.

Hvers vegna spyr enginn af hinum djörfu fjölmiðlamönnum landsins Kára hvort það skjóti ekki skökku við að maður sem vildi veðsetja íslenska ríkið upp á tugi milljarða króna fyrir eigin loftkastala í heilbrigðisgeiranum ráðist nú með stóryrðum á hugmyndir einhverra manna sem ekki er vitað til að hafi farið fram á fé úr ríkissjóði?

Eins furðulegt og það er nú þá stendur umrædd heimild til ríkisábyrgðar handa deCode enn í lögum þótt Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi lagt fram frumvarp um að afnema hana.