Ríkisafskipti út í mýri

Votlendi er stærsta kolefnisgeymsla Jarðar á landi.

 Eins og menn þekkja þá hefur hinum hræðilega einkabíl lengi verið kennt nánast einum um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Nánast allar aðgerðir stjórnvalda til að draga úr losun þessara lofttegunda hafa beinst að einkabílnum. Menn eru skattlagðir með kolefnisskatti þegar þeir kaupa bílinn, þegar þeir setja eldsneyti á hann og einnig með kolefnistengdu bifreiðagjaldi. Þá hafa olíufélög verið þvinguð með lögum til að blanda dýrum lífolíum og orkusnauðu korn-etanóli út í eldsneyti sem leiðir til þess að bíleigendur þurfa að fara fleiri ferðir á bensínstöðvar um leið og matjurtir eru teknar frá einhverjum svöngum úti í heimi.

Allt varð þetta at stjórnvalda í bíleigendum sett í grátbroslegt samhengi þegar Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins dró það fram með ítrekuðum fyrirspurnum sínum til umhverfisráðherra síðasta vetur að bílar bera einungis ábyrgð á innan við 4% árlegs útblásturs gróðurhúsalofttegunda hér á landi en framræst land 72%. Það er mat bæði íslenskra vísindamanna og loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Allt puð stjórnmálamanna í áratugi gegn einkabílnum hefur því ekkert að segja miðað við þann óskunda sem stjórnmálamenn unnu sjálfir með því að láta grafa landið sundur þvers og kruss með framræsluskurðum.

Í grein um endurheimt votlendis sem Sigríður ritaði ásamt öðrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Haraldi Benediktssyni, í Morgunblaðið í vikunni bentu þau á fleiri jákvæð atriði við endurheimt slíks lands:

Auk þess að stöðva losun gróðuhúsalofttegunda hefur endurheimt votlendis fleiri jákvæða þætti í för með sér. Votlendi heldur jafnvægi í vatnsbúskap, það tekur við vatni í vætutíð og veitir því frá sér í þurrki. Þetta er mikilvægt fyrir ár og læki, ekki síst þar sem laxfisk er að finna. Votlendi er sömuleiðis mikilvægt búsvæði margra fugla og plantna styður þannig við lífræðilega fjölbreytni landsins.

Og líkt og þingmennirnir nefna í grein sinni er hér komið mikið tækifæri fyrir bændur og aðra landeigendur til samvinnu við þá einstaklinga og fyrirtæki sem vilja jafna útblástur sinn.