Nýjustu tölur úr Þórsmörk

Fjölmiðlamenn geta verið ótrúlega sjálfhverfir. Nú eru einhverjir þeirra að fara á taugum vegna þess að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum ætlar ekki að láta þá fá rauntímaupplýsingar um kærð kynferðisbrot.

Það er eins og þessir fjölmiðlamenn haldi að hér séu á ferð einhver kosningaúrslit. Það séu að koma tölur. Þeir verði að fá þær strax. Annað sé „þöggun“.

Einstaklingur telur að brotið hafi verið á sér og ákveður að leita aðstoðar lögreglunnar. Skyndilega finnst einhverjum blaðamönnum að þeir séu orðnir aðilar að málinu og eigi rétt á tafarlausum upplýsingum. Þeir geti alls ekki beðið fram yfir helgi. Þeir verði að fá nýjustu tölur.

Menn ættu að hugsa um fórnarlambið í málinu. Það situr kannski á neyðarmóttökunni, varla byrjað að jafna sig á miklu áfalli, hugsanlega mesta áfalli ævinnar fram að því. Hverjum er gerður greiði með því að á sama tíma sé sagt frá því í fréttum að búið sé að kæra kynferðisbrot á útihátíðinni þar sem fórnarlambið var að skemmta sér? Fórnarlambið hugsar auðvitað með sér að það fyrsta sem fólk þar geri, þegar slík frétt berst, sé að velta fyrir sér hvern vanti í hópinn. Fór einhver héðan í fylgd starfsmanna? Hvar er Jói, hefur einhver séð Jóa? Getur verið að það sé Jói sem var ráðist á?

Þegar frétt er svo sögð í útvarpi að nítján ára drengur eða tvítug stúlka hafi orðið fyrir ofbeldi á útihátíðinni í Mikladal, kemur upp skelfing hjá þeim sem eiga börn á hátíðinni. Eðlilega vilja allir ganga úr skugga um að sitt barn sé óhult. Allir reyna að hringja. Margir ná ekki sambandi. Hvaða hagsmunum er þjónað þegar sagðar eru fréttir sem valda ótta hjá hunduðum eða þúsundum foreldra?

Hvað er það eiginlega sem kallar á að fjölmiðlamenn fái rauntímaupplýsingar um fjölda kærða mála af einni tegund? Hvers vegna má ekki bíða fram yfir helgi eftir þeim tölum? Hvaða hagsmuni hefur „almenningur“ af því að fá tölurnar samdægurs?

Hvernig dettur mönnum í hug að kalla það „þöggun“ ef tölurnar eru ekki sendar út samdægurs?