Niður með skuldir og skatta

Líklega hefur ekkert eitt auðveldað ríkissjóði Íslands jafn vel að takast á við afleiðingar bankahrunsins 2008 og að hann skuldaði ekki verulegar fjárhæðir þegar áfallið varð.

Mikil áhersla hafði verið lögð á að greiða skuldir ríkisins áratuginn fyrir hrunið.

Staða ríkissjóðs versnaði mjög á árunum eftir 2008 en á síðustu árum hefur tekist að snúa dæminu við á nýjan leik.

Í viðtali við Morgunblaðið í gær segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra: „Við höfum náð stórmerkilegum árangri við uppgreiðslu skulda. Þegar menn hætta að reka ríkið með halla opnast tækifæri til að gera upp skuldir og sjá skuldahlutföllin lagast.“

Bjarni segir að sérstök áhersla hafi verið lögð á að greiða af erlendum lánum ríkissjóðs: „Við höfum á þessu tímabili lokið við uppgreiðslu allra erlendra lána sem tengdust aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Þetta hefur bæði þau áhrif að vaxtakostnaður ríkissjóðs lækkar og að kjör á þeim skuldum sem eftir standa verða betri en ella væri.

Ríkissjóður skuldar þó enn um 50% af árlegri landsframleiðslu. Og eins og menn þekkja er skuld í dag skattur á morgun. Í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar næsta vor ætti enginn flokkur eða frambjóðandi að heita nýjum útgjöldum fyrr en búið er að greiða allar skuldir ríkissjóðs og lækka skatta verulega.

Vefþjóðviljinn 201. tbl. 20. árg.