Orðsporið og þingrofið

Mynd: Yadid Levy / Norden.org.

Hvernig var þetta með „orðspor Íslands“? Sögðust ekki allir trúa því í vor að „orðspor“ landsins væri komið í lægsta flokk eftir umfjöllun um Panama-skjölin svonefndu? Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru gráti nær í þingumræðum. „Orðsporið“ var í rúst.

Ráðherrum var svo brugðið að þeir sögðu í viðtali að til álita kæmi að stytta kjörtímabilið ef vel gengi að afgreiða stjórnarfrumvörpin. Stjórnarandstaðan, sem var nýbúin að fagna fréttum um að forseti Íslands hefði neitað að samþykkja þingrof, hefur síðan látið eins og með einhverjum slíkum ummælum sé búið að ákveða að rjúfa þingið í haust. 63 þingmenn eiga að missa umboð sitt, þótt við völd sitji ríkisstjórn með traustan þingmeirihluta. Reynt er að þrýsta á slíkt aftur og aftur, þótt engin rök mæli með þingrofi, önnur en pólitískir hagsmunir Vinstrigrænna og Pírata.

Nú hafa Íslendingar farið um heiminn í sumar, fengið hundruð þúsunda erlendra ferðamanna hingað og lesið erlenda umfjöllun um Ísland síðustu mánuði.

Hvernig er „orðsporið“?

Þegar Íslendingar fóru um Frakkland í nokkrar vikur í júní, málaðir í framan og með fána, var ekki mikið verið að ræða við þá um orðsporið?

Hefur einhver fjallað um Ísland í erlendum fjölmiðlum undanfarna mánuði án þess að ræða fram og til baka um aflandsfélög? Metfjöldi erlendra ferðamanna sem hingað hefur komið í sumar, og líklega hefur kynnt  sér margt um land og þjóð áður, hvað segir hann um „orðspor Íslands“?

Vefþjóðviljinn 200. tbl. 20. árg.