Fimmtudagur 26. maí 2016

Vefþjóðviljinn 147. tbl. 20. árg.

Reglulega berast fréttir af því að yfirvöld í einhverju ríkinu ætli að efna til mikillar brennu á fílabeinum, þótt þau séu alls ekki góður eldiviður. Í síðasta mánuði var slík brenna til að mynda í Kenýa þar sem 100 tonn af beinum úr 6.700 fílum fóru á bálköstinn.

Þessar brennur líta kannski út fyrir að vera mikil áminning til veiðiþjófa. Það er að minnsta kosti það sem kotrosknir stjórnmálamennirnir vilja að menn sjái. Þeir séu að gera eitthvað í málinu, taka af festu á veiðiþjófnaði.

En til skamms tíma má vera augljóst að þegar 100 tonn af fílabeini fuðra upp og framboð dregst saman fer verð á beininu í sömu átt. Varla draga verðhækkanir úr áhuga veiðiþjófa.

Hið sama má segja um bann við verslun með fílabeinin og brennurnar. Það hækkar bara verðið og eykur freistingar fyrir veiðiþjófa. Verslunarbannið kemur einnig í veg fyrir að landeigendur sjái sér hag í að vernda dýrin. Hví skyldu þeir vernda dýr sem þeir mega ekki nýta með einhverjum hætti?

Hvað ætli væru margar hænur á lífi ef verslun með þær og afurðir þeirra væri bönnuð?