Mánudagur 23. mars 2015

Vefþjóðviljinn 82. tbl. 19. árg.

Eins og flestir vita munaði aðeins einu atkvæði á formannsframbjóðendum á landsfundi Samfylkingarinnar. „Og var ekki endurtalið?“ spyr þá eflaust einhver. Nei, það voru engir kjörseðlar, kosningin var auðvitað rafræn. Auðvitað getur stjórnmálaflokkur, sem vill vera nútímalegur, ekki látið kjósa með kjörseðlum. Fimmhundruð manna fundur kallar að sjálfsögðu á rafræna kosningu. Að vísu þýðir það að enginn getur skoðað kjörseðlana eftir á og sannfært sig um að rétt hafi verið talið. Í staðinn kemur einhver tölvumaður og segir að forritið sé alveg öruggt. 

Sumir kjósendur gátu víst ekki kosið. Þeir fengu „villumeldingu“. Það er líka alveg eðlilegt. 

Hvers vegna lætur Samfylkingin kjósa rafrænt á fámennum landsfundi? Það er vegna þess að Samfylkingin eltist við allt svona. Skömmu fyrir bankahrunið lagði varaformaður Samfylkingarinnar til opinberlega að stjórnsýslan yrði „tvítyngd“. Enskan yrði jafngild íslensku í stjórnsýslunni. Það var á þeim árum sem alþjóðavæðingin var alveg málið. Þegar Samfylkingin varð ráðandi í ríkisstjórn varð að breyta nöfnum á ráðuneytum. Fjármálaráðuneytið varð fjármála- og efnahagsráðuneytið. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið varð að verða dóms- og mannréttindaráðuneytið. Samgönguráðuneytið varð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Menntamálaráðuneytið varð mennta- og menningarmálaráðuneytið. Síðan voru ráðuneyti sameinuð, jafnvel þótt þau ættu ekkert sameiginlegt. Jafnvel þingnefndir urðu að fá ný nöfn. Allsherjarnefnd varð að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Núverandi ríkisstjórn hefur auðvitað ekki breytt neinu af þessu til baka.

Í borgarstjórn Reykjavíkur urðu kratar auðvitað að gera eitthvað svona. Þar var til dæmis stofnað „mannréttindaráð“, rétt eins og mannréttindi í landinu væru mikilvægt verkefni sveitarfélaga. Sú nefnd hefur auðvitað ekki minnst á hefðbundin grundvallarmannréttindi, eins og til dæmis eignarrétt, en hefur mikinn áhuga á ýmsu öðru.

Þeir eru til sem eru alltaf svona. Þeir sem standast aldrei þá freistingu að gera eitthvað til að sýna gæði sín opinberlega. Slíkir menn eru til dæmis mjög ákafir að finna algeng orð sem eru skyndilega orðin mjög móðgandi fyrir einhvern, og hætta svo að nota þau, og gera það mjög áberandi. Fyrr í vetur kynnti innanríkisráðuneytið til dæmis drög að lagafrumvarpi þar sem átti að eyða slíkum orðum úr lögum. Dæmi um það var að nú skyldi í lögum talað um „fatlað fólk“, í staðinn fyrir hið skelfilega orð, „fatlaðir“. Þetta var lagt til í alvöru.