Fimmtudagur 28. júní 2007

179. tbl. 11. árg.

H venær ætli þeir hætti?

Frá því hefur verið greint í fréttum, og það eins og ekkert sé sjálfsagðara, að búið sé að banna einka- og nektardans með lögum og taki það gildi um næstu mánaðamót. Þetta hafi Alþingi gert, meðfram öðrum mikilvægum nýmælum, nú í vor og það án þess nokkur tæki eftir því, hvað þá að málið yrði umdeilt.

Og nú þegar búið er að segja frá þessu nýjasta tiltæki hinna umburðarlyndu alþingismanna þá er varla nokkur sem stendur í því að mótmæla banninu. Það er víst ekkert nútímalegt og víðsýnt að vilja verja rétt fólks til að stunda nektardans.

Þó er það svo, að nektardans hefur hingað til verið viðurkennd atvinnugrein, meira að segja sérstaklega nefnd í lögum sem slík. Ef Alþingi tekur sig skyndilega til og bannar hana, þá er ómótmælanlega verið að skerða atvinnufrelsi fólks. Það frelsi er varið í stjórnarskránni, sem yfirleitt þykir mjög fínt að eigi að „njóta vafans“. En svo furðulegt sem það er, að hinir hefðbundnu vafakenningarmenn þeir eru hvergi finnanlegir þegar atvinnufrelsi nektardansara er annars vegar. En hvað veit Vefþjóðviljinn. Mannréttindaskrifstofa Íslands er kannski rétt ófarin á stað.

En þegar menn hafa látið sér vel líka að bönnuð sé atvinnugrein sem þeir sjálfir gætu ekki hugsað sér að stunda, hvernig hafa þeir þá hugsað sér að bregðast við þegar að því kemur einhvern daginn að nýjasta bannið hittir þá sjálfa fyrir? Hvaða grundvallarrök verða þá eftir, grundvallarrök sem menn hafa ekki sjálfir gefið upp á bátinn með þögninni þegar þeirra eigin áhugamál voru ekki í húfi?

Já hvenær ætli bönnurunum þyki komið nóg?