Þriðjudagur 26. júní 2007

177. tbl. 11. árg.

B

Vargas Llosa á áttunda áratugnum í Lima.

andaríska dagblaðið The Wall Street Journal átti viðtal við perúska rithöfundinn Mario Vargas Llosa um helgina. Vargas Llosa er fleira til lista lagt en að skrifa vinsælar skáldsögur sem sumar eiga sér sterka tilvísun í stjórnmál og þjóðfélagsástand í Mið- og Suður-Ameríku. Hann bauð sig einnig fram til forseta árið 1990 með einkavæðingu, viðskiptafrelsi og séreignarrétt á stefnuskránni og tapaði fyrir Alberto Fujimori. Það var hins vegar núverandi forseti landsins, Alan García, sem einnig var forseti á árunum 1985 til 1990 sem Vargas Llosa segir að hafi att sér út í stjórmál. García hafði stórfellda þjóðnýtingu á prjónunum og keyrði efnahag landsins í strand. „Nú er þessi sami Alan García talsmaður kapítalisma í Perú“, segir Vargas Llosa í viðtalinu og hlær.

Vargas Llosa studdi ekki innrásina í Írak árið 2003. En ein bóka hans, Veisla geitarinnar, er byggð á stjórnarárum harðstjórans Rafaels Trujillo sem stýrði Dóminíkanska lýðveldinu ásamt sonum sínum af mikilli grimmd á árunum 1930 til 1961. Það mun ófögur lýsing og frændi Vargas Llosa hefur fest hana á filmu. Vargas Llosa heimsótti Írak hins vegar eftir innrásina og segir í viðtalinu að sér hafi þótt hann vera kominn til Dóminíkanska lýðveldisins að hlýða á sögur af Trujillo og sonum hans þegar hann heyrði fólk lýsa stjórnartíð Saddams.

Það hefur verið svo mikil andstaða við stríðið hafa menn gleymt því að að stjórn Saddams var ein versta harðstjórn sem nokkur þjóð hefur mátt þola. Hún var sambærileg við stjórnir Hitlers og Stalíns. Írak er betur sett án Saddams Hussein. Á því leikur enginn vafi.

Vargas Llosa hefur því skipt um skoðun á innrásinni. En alveg þveröfugt við marga aðra, sem nú vilja gefast upp fyrir þeim mönnum sem sprengja moskur og útimarkaði í Bagdad í loft upp eins og þeir frekast geta, er hann ekki lengur andvígur henni.

Í viðtalinu kemur fram að Vargas Llosa hefur ekki aðeins kynnst harðstjórn af afspurn. Hann ólst upp undir harðstjórn Manuels Odría í Perú á sjötta áratug síðustu aldar. Hann leggur áherslu á að harðstjórn smiti allt þjóðfélagið, allt mannlífið, allt frá ráðneytum til sambands foreldra við börn sín. Það sé ekkert ómengað. Þessi áminning er þörf þeim sem hafa aldrei kynnst harðstjórn og halda kannski að Saddam hafi nú ekki verið svo slæmur því hann hafi að minnsta kosti haldið uppi röð og reglu!

O g úr því Vefþjóðviljinn er kominn alla leið til Perú er vert að geta þess að landi Vargas Llosa að nafni Hernando de Soto gaf út merkilega bók fyrir nokkrum árum sem kom út á íslensku á síðasta ári. Í bókinni Leyndardómur fjármagnsins leitar de Soto svara við því hvernig það geti gerst að sumar þjóðir njóti velsældar með frjálsum markaði á meðan aðrar, sem einnig virðist hafa tileinkað sér kapítalisma, séu fastar fátækt og upplausn. Svarið telur de Soto liggja í skorti á skýrum eignarrétti sem hafi það í för með sér að menn geti ekki veðsett eignir sínar og þar með ekki fengið fjármagn í rekstur. Eignirnar liggi því dauðar.

Þegar menn ganga út um dyrnar á Hiltonhótelinu við Nílarfljót segja þeir ekki skilið við hátækniveröld faxtækja og ísvéla, sjónvarps og sýklalyfja. Íbúar Kaíró hafa aðgang að öllu þessu. Það sem menn segja í reynd skilið við er heimur viðskipta með eignarréttindum sem má framfylgja með lögum.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá reyndi de Soto og rannsóknarhópur hans að leggja mat á hversu mikil verðmæti liggja dauð í þriðja heiminum og fyrrum kommúnistaríkjum vegna skort á skýrum séreignarrétti. Það er mat þeirra að upphæðin sé nálægt heildarverðmæti allra fyrirtækja sem skráð eru á helstu verðbréfamörkuðum í tuttugu þróuðustu ríkjum heims. Og það er stórmerkilegt að þessi verðmæti eru níutíu og þrisvar sinnum meiri en öll þróunaraðstoð iðnríkjanna við þriðja heiminn undanfarna þrjá áratugi. Þegar þróunaraðstoð er sett í þetta samhengi sjá menn væntanlega að hún er nær einskis virði í samanburði við það ef tækist að styrkja eignarrétt í þriðja heiminum og vekja þar með dauða fjármagnið til lífsins.

Leyndardómur fjármagnsins fæst í Bóksölu Andríkis.