Helgarsprokið 5. janúar 2003

5. tbl. 7. árg.

Í

Eitt ríkisrekið skólakerfi hentaði ekki öllum .

slenskir vinstri menn, hvort sem þeir kalla sig nútímalega jafnaðarmenn eða vinstrisinnaða græningja, eru ákaflega mikið á móti öllum einkarekstri. Hvenær sem til tals kemur að ríkið dragi úr umsvifum sínum og selji eða bjóði út hluta starfsemi sinnar, þá ólmast þessir menn á móti. Þeir þvælast fyrir sölu ríkisbankanna og ríkissímans, en þeir eru þó sérstaklega andvígir því að hleypa einkaaðilum inn á það svið þjóðlífsins sem kennt er við velferð. Til stuðnings andstöðu sinni vísa þeir gjarna til Norðurlandanna og telja að þau skuli vera fyrirmynd í þessum efnum, enda sé þar allt í viðjum ríkisins. Þessi hugsun íslenskra vinstri manna sýnir ágætlega á hvaða stigi þeir eru. Þeir trúa því að veröldin hafi ekkert breyst og enn séu allir „jafnaðarmenn“ þeirrar skoðunar að engin önnur leið en ríkisleiðin sé fær í velferðarmálum. Aðeins með því að ríkið reki alla velferðarþjónustu sé unnt að veita þessa þjónustu. Þó er það svo að sæluríkin á Norðurlöndum eru ekki öll jafn einbeitt í trú sinni á ríkissæluna og íslenskir vinstri menn og jafnvel í Svíþjóð fær einkaframtakið útrás í velferðarþjónustunni, þ.e. í heilbrigðis- og menntakerfinu.

Fyrir nokkru var sagt frá því hér á þessum síðum að í Svíþjóð hafa verið stigin mikilvæg skref í átt til einkavæðingar í heilbrigðismálum og vinstri mönnum, eða jafnaðarmönnum, þar í landi þykir ekki tiltökumál þó fleiri en ríkið reki þjónustu á heilbrigðissviði. Þetta þykir hagkvæmt og gott fyrir alla aðila, allt frá sjúklingum til skattgreiðenda. Heilbrigðismál eru þó ekki einu velferðarmálin sem Svíar hafa séð ástæðu til að hleypa einkaframtakinu inn í, því menntun er að hluta til í höndum einkafyrirtækja. Um þetta fjallar James Tooley í grein í nýjasta tölublaði tímaritsins Economic Affairs sem Institute of Economic Affairs í London gefur út. Tooley segir frá því í greinni að í Svíþjóð hafi verið tekið upp ávísanakerfi í menntamálum og að það gildi jafnt fyrir þann aldur sem sé undir skólaskyldu sem hina eldri.

„Margir hafa nýtt sér þessa möguleika og nú eru allt að 20% sænskra nemenda á skólaskyldualdri í einkaskólum, en misjafnt er milli sveitarfélaga hve hátt hlutfallið er.“

Tooley segir að þessar endurbætur í sænska skólakerfinu hafi hafist árið 1992 þegar sveitarfélögum, sem sjái að mestu um skólamál, hafi verið gert að greiða 85% af reiknuðum meðalkostnaði á nemanda í sveitarfélaginu til hvers þess skóla sem foreldrarnir vildu senda börnin sín í. Þetta hlutfall, 85%, hafi verið valið vegna þess að 15% hafi verið reiknað sem stjórnunarkostnaður sveitarfélagsins. Hlutfallið hafi verið lækkað niður í 75% árið 1995. Engar reglur munu vera í gildi í Svíþjóð um það hvers konar skólar geti þegið greiðslur frá sveitarfélögunum, þeir þurfa aðeins að uppfylla ákveðin skilyrði um þá menntun sem þeir veita nemendunum. Margir hafa nýtt sér þessa möguleika og nú eru allt að 20% sænskra nemenda á skólaskyldualdri í einkaskólum, en misjafnt er milli sveitarfélaga hve hátt hlutfallið er. Í Stokkhólmi er það til að mynda um 10%. Vöxtur einkaframtaksins á þessu sviði er þó mikill og sum sveitarfélög telja að um helminingur nemenda sinna verði  einkaskólum innan fárra ára.

Að sögn Tooley eru að minnsta kosti þrjár keðjur skóla sem reknar eru í hagnaðarskyni í Svíþjóð. Ein þeirra er Kunskapsskolan, sem var stofnaður árið 1999 og rekur 12 skóla og hyggst fjölga um 7 skóla á þessu ári. Innan fimm ára reiknar Kunskapsskolan með að verða kominn með 50 skóla í keðjuna sína og telur sig geta náð mun hagkvæmari rekstri með svo stóru fyrirtæki. Kunskapsskolan býður bæði skyldunám fyrir grunnskólanema og framhaldsnám fyrir þá sem eldri eru. Fyrirtækið býður einstaklingsbundna menntun eftir mati á hverjum nemanda fyrir sig. Nemendur greiða þrátt fyrir þetta engin skólagjöld, allar tekjur skólans koma frá sveitarfélögunum, sem eins og áður sagði greiða 75% af reiknuðum kostnaði sveitarfélagsins á nemanda.

Forystumönnum íslenskra vinstri manna virðist alveg fyrirmunað að skilja að heimurinn hefur breyst, að múrinn er hruninn og að félagshyggjan beið ósigur fyrir einstaklingsframtakinu. Þeir streitast enn á móti og vilja halda í gamla „góða“ ríkisbáknið sama hvað tautar og raular. Þessi afstaða þeirra mun vitaskuld hægt en örugglega gera þá að enn meiri nátttröllum en orðið er og að lokum munu þeir verða að gera upp við sig hvort þeir kjósa frekar að flokkar þeirra gufi upp eða þeir lagi sig að staðreyndum. Ef sænskir jafnaðarmenn hafa áttað sig á því að einkarekstur er ekki af hinu illa í velferðarkerfinu, hvers vegna skyldu íslenskir „skoðanabræður“ þeirra þá alls ekki vilja heyra á slíkt minnst? Það ætti að vera mönnum umhugsunarefni þegar þeir eru orðnir kaþólskari en páfinn.